Rafn fæddist 1. júlí 1866 að Lýtingsstöðum í Skagafirði, sonur Símonar Jónssonar og Arnfríðar Rafnsdóttur. Rafn var skírður Júlíus Rafn, nefndur Júlíus á yngri árum en síðar jafnan Rafn Júlíus eða Rafn. 1

Símon var bóndi að Minni-Ökrum í Blönduhlíð og víðar í Skagafirði. Hann lést að Minni-Ökrum árið 1876. Var Rafn þá 10 ára.

Arnfríður hélt í upphafi óskiptu búi eftir mann sinn en veiktist ári eftir lát Símonar. Missti hún þá búið og varð að láta drenginn frá sér.2

Rafn fékk inni hjá Eyjólfi Jóhannessyni að Vindheimum í Reykjasókn og fermdist þar árið 1880. „Kann og skilur sæmilega. Skrifar og reiknar ofulítið. Hvatlegur í framgöngu“ segir í prestþjónustubók Mælifellsprestakalls.3

Þegar Rafn síðar reisti sér hús á Norðfirði nefndi hann bústaðinn Vindheim, sem bendir til þess að hann hafi átt góðar minningar frá Skagafirði.

Árið 1885 fæddist Rafni sonur, Jón, síðar nefndur Jón eldri Rafnsson til aðgreiningar frá alnafna sínum og hálfbróður sem fæddist á Norðfirði fjórtán árum síðar. Jón eldri fæddist að Gili í Svartárdal sem er dagleið frá Vindheimum.

Barnsmóðir Rafns var Elín Andrésdóttir (f.1853). Líklegt er að Rafn hafi snemma verið í vinnumennsku og fundum þeirra Elínar hafi borið saman við þær kringumstæður.

Elín flutti með son sinn að Hvalnesi á Skaga árið 1887 og er skráð vinnukona að Selá árið 1890 4 en Selá er næsti bær við Hvalnes. Segir Jón sonur hennar frá uppvexti sínum og manndómsárum í merku viðtali í Þjóðviljanum árið 1965.5

Um líkt leyti og þau mæðgin fluttu að Hvalnesi eru spurnir af Rafni suður í Ytri-Njarðvík.6 Það kann hafa verið þá að Rafn fyrst sá Guðrúnu Gísladóttur (f. 1872). En foreldrar Guðrúnar, Gísli Þorsteinnson og Sigríður Jónsdóttir bjuggu á þessum tíma á Suðurnesjum þar sem Gísli stundaði sjómennsku. Rafn mun hafa kynnst útræði frá Skaga kornungur og átti sjósókn mjög huga Rafns upp frá því.7

Eftir um fjögur ár í Ytri-Njarðvík flutti Rafn árið 1891 austur til Mjóafjarðar, ráðinn vinnumaður hjá Gísla Hjálmarssyni útvegsbónda.8 En í manntali 1892 er Rafn skráður til heimilis hjá Lars Kristjáni Jónssyni og konu hans Maríu Hjálmarsdóttur, hálfsystur Gísla.

Þá er Rafns og getið í tengslum við stofnun stúku í Mjóafirði í febrúar 1893.9

Eitthvað hefur þó gustað um Rafn í Mjóafirði því í byrjun júní sama ár birti hann yfirlýsingu í héraðsblaðinu Austra þar sem hann ber af sér ótilgreindan áburð.10

En dvölin í Mjóafirði tók skjótan endi því ári síðar var Rafn kominn til Norðfjarðar. Rafn bjó í byrjun í Nesi 4 hjá Gísla Hjálmarssyni sem flutti samtímis Rafni frá Mjóafirði.11

Það hefur líklega verið nálægt áramótum 1893-94 að Guðrún Gísladóttir fór austur til Rafns og 23. desember 1894 voru þau gefin saman í Skorrastaðarkirkju í Norðfjarðarsveit. Vottar voru þeir Gísli Hjálmarsson og Gísli Þorsteinsson faðir Guðrúnar.12 Fyrsta barn þeirra Guðrúnar og Rafns, Sigríður Ingibjörg, var þá 10 vikna .

Rafn er skráður húsmaður í Skorraðstaðasókn frá 1895 en frá 1899 bóndi að Vindheimi í Nessókn.13 Getur Bjarni Þórðarson þess í grein í blaðinu Austurlandi árið 1965 að Rafn Júlíus og Lárus Waldorff hafi reist Vindheim.14 Það hefur líklega verið 1896, en Arnfríður Ágústa fæddist þar 7. ágúst 1897.15

Rafn var í hópi útgerðarbænda sem þinguðu á Seyðisfirði 1897 og stóð að byggingu íshúss með öðrum útgerðarmönnum á Norðfirði um svipað leyti.16 Rafns er einnig getið sem æðsta templars stúkunnar Nýju aldarinnar sem stofnuð var 1899.17

Þannig má ætla að Rafn hafi notið nokkurrar velgengni þessi ár eystra. Að því leyti var það gegn gangi mála þegar þau Guðrún fluttu með börnin, sex talsins, til Reykjavíkur árið 1903. Sat Rafn þá í hreppsnefnd Norðfjarðarhrepps18.

Heilsuleysi Guðrúnar kann að hafa ráðið nokkru um búferlin og að systir Guðrúnar, Guðfinna Gísladóttir bjó í Reykjavík. Eins áttu þær systur að föðurfólk í Grímsnesi. Og um tíma eftir flutninginn voru systkynin Jón (f.1899) og Helga (f.1900) en mest Gísli (f. 1896) hjá frændfólki á Efra-Apavatni.

Rafn starfaði við steinsmíði og grjóthögg í Reykjavík og er getið í Múraratali og steinsmiða, þótt hann hafi árstíðabundið einnig stundað sjósókn. Þannig er Rafn tilgreindur formaður á bát Gísla Hjálmarssonar árið 1904.19.

Í bæjarskrá Reykjavíkur árið 1905 er Rafn skráður til heimilis að Laugavegi 33 og 1909 að Laufásvegi 42.

En árið 1909 tók fjölskyldan sig upp og flutti frá Reykjavík að Framnesi í Grundarfirði á Snæfellsnesi þar sem Rafn stundaði róðra á eigin báti.20

Í Framnesi fæddist árið 1910 tíunda barn þeirra hjóna, Guðrún (yngri) Rafnsdóttir.21 En Rafn missti bát sinn 1911 og flutti fjölskyldan þá til Stykkishólms 22 þar sem Guðrún Gísladóttir lést 5. janúar 1912. Guðrún var jarðsett í Grundarfirði.

Eftir lát Guðrúnar fengu yngstu dæturnar Arnfríður, Helga og Guðrún inni hjá vinafólki fjölskyldunnar á Norðfirði. Jón yngri fór í fóstur að Gröf í Grundarfirði, Jóhann til Árna Páls Jónssonar kaupmanns í Stykkishólmi og Erlendur til Soffíu systur Árna í Reykjavík. Gísli Rafnsson var hjá frændfólki sínu að Efra Apavatni í Grímsnesi og Sigríður í Reykjavík hjá Guðfinnu móðursystur þeirra systkyna.

Sumarið 1914 var Jón eldri Rafnsson á árabáti frá Norðfirði 23 og 1916 eru þeir feðgar báðir skráðir til heimilis í Nessókn. 1917 eru Jón yngri og Gísli einnig komnir til Norðfjarðar. Gísli ílentist þó ekki eystra og bjó í Reykjavík það sem hann átti ólifað. Gísli dó úr berklum 1926.

Jón eldri settist að á Norðfirði og bjó þar eystra með konu sinni Hróðnýju Jónsdóttur allt til 1944 að þau fluttu til Selfoss og síðar til Reykjavíkur.24

Árið 1914 eignaðist Rafn Unni Dagmar Katrínu með Friðsemd Jónsdóttur (f.1886) í Reykjavík. Unnur Dagmar, yngst barna Rafns, bjó lengst af í Reykjavík.

Eftir að Rafn flutti til Norðfjarðar 1916 freistaði hann þess að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið áratug áður en átti nú erfiðar uppdráttar. Voru þar á fleti fyrir kaupmenn og útgerðarbændur sem höfðu tögl og hagldir í atvinnulífi og viðskiptum.25

Þeir feðgar, Rafn og Jón yngri sóttu vetrarvertíð í Vestmannaeyjum og árið 1918 flutti Helga dóttir Rafns til Eyja þar sem hún giftist Ísleifi Högnasyni, kaupfélagsstjóra og síðar alþingismanni.26 Guðrún systir Helgu flutti til Eyja 1920, Jón yngri síðla árs 1923 og Rafn faðir þeirra skömmu síðar. Með Rafni flutti til Eyja sambýliskona hans, Guðbjörg Bessadóttir (1871-1939) og sonur Guðbjargar, Sigmar Axel Jónsson.27

Rafn stundaði ýmis störf í Eyjum sem tengjast sjósókn og afgreiddi um árabil í áfengiseinkasölunni í Eyjum.

Tveir synir Rafns og Guðrúnar urðu berklunum að bráð þessi ár, Erlendur sem lést 1922 og Gísli 1926. Og dætur þeirra, Sigríður og Arnfríður veiktust snemma af berklum þótt þær lifðu föður sinn. Sigríður lést 1936 og Arnfríður 1940.

Þessi örlög systkynanna settu án efa mark sitt á síðustu æviár Rafns.

Rafn andaðist í Vestmannaeyjum 9. júlí 1933 og er leiði hans í Landakirkjugarði.

Jón yngri Rafnsson orti á 100 ára ártíð Rafns eftirfarandi ljóð sem birt var í Sjómannablaðinu Víkingi 1.7.1966.28

Hundrað ára afmæli sjómanns

Bærist hljótt í brjósti mér
bernskuforn og ljúfur strengur
yfir þinni hvílu hér,
hundrað ára gamli drengur.

Ungur hélstu úr heimavör
hylltur Ægisdætrum prúðum,
lagviss höndin, lundin ör,
látið stundum vaða á súðum.

Þar var fátt um þarflaus orð,
þanki vökull stýristaka,
gætt til sjóa á bæði borð,
bátur varinn, kveðin staka.

Tíðum skilur lán og list,
leiði stopult vegs og frama.
Og að sönnu útivist
eiga hlaustu stormasama.

Þó var einatt alvakinn
ylur brjósts og hugans teiti,
gott að vera granni þinn,
glatt í þínu föruneyti.

Svo var línan loka skráð,
lent í sævar hinsta broti,
allra vega endi náð,
allra heimsins veðrasloti.

Vermir, glæðir veikan hlyn
veraldar í stormi hörðum
heillar aldar endurskin
yfir þínum höfuðsvörðum.